þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Til Argentínu

Það eru tómir sigrar þessa dagana í fjölskyldunni. Nú síðast var ég að fá þær fréttir að ég væri komin með Rotary International styrk til að fara í mastersnám í Buenos Aires í Argentínu. Ég er alveg í skýjunum! Saúl brosir, en hefur áhyggjur að praktískum atriðum. Það sem ég er að fara að læra heitir Meistaranám í alþjóðlegum friðarfræðum og lausn átaka (International Peace and Conflict Resolving) og fæst við eflingu friðar, friðsamlegar lausnir á átökum og þróun. 1 1/2 árs nám í einum virtasta og dýrasta háskóla í Argentínu, Buenos Aires. Námið hefst í mars / apríl 2007. Allt borgað, meira að segja einn flugmiði til og frá.

Það eru allir velkomir í heimsókn. Ég sendi ykkur góðan link á borgina svo þið getið farið að hita upp http://www.bue.gov.ar/home/index.php?&lang=en

Kveðja,
Gerður

föstudagur, nóvember 25, 2005

Veikindi í Engjaseli

Gestur er búinn að vera heima næstum alla vikuna með mikinn hósta. Hann var kominn með einhverja sýkingu í lungum og fékk sýklalyf við því sem fóru bara vel í hann. Svo fékk hann í fyrsta sinn asmapúst. Það hefur gengið vel að gefa honum pústið og lyfið því honum finnst allt svona svo skemmtilegt - hann beinlínis dansaði af gleði hjá lækninum eftir að hann skoðaði í kokið á honum. Ætli þetta sé afleiðing af því að hafa byrjað æfina á spítala? Honum var farið að leiðast heima, eins og sást í gær þegar María og Hafsteinn komu í heimsókn, eða Happí eins og Gestur kallar hann. Getur var svo glaður að hann gat bara ekki hætt að faðma Hafstein, sem var orðinn frekar pirraður á því þrátt fyrir mikið jafnaðargeð. En hann fór í leikskólann í dag, var gjörsamlega uppgefinn eftir það og sofnaði snemma.

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Gula beltið!


Já, SMG tók gula beltið í Tae kwondo í gærkvöld og var meðfylgjandi mynd rissuð upp við það tækifæri. Nú býðst fjölskyldunni sú þjónusta að fá hana til að sparka í aðila sem kunna að valda leiðindum í tilvist þeirra. Gætið þess að viðkomandi mega ekki vera mikið yfir 1.60 á hæð.

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Vefdagbók gugga litla

Fyrir þá sem ekki vita þá heldur Guðjón Ingi úti vefdagbók á síðu sinni. Hér er úrdráttur úr síðustu færslu:

"Komin helgi og pabbi að gefa mér morgunmat inni í eldhúsi á meðan mamma skrifar fyrir mína hönd hér í dagbókina. Það berast mikil læti frá eldhúsinu - "meira meira meira" er eitt af því sem mamma heyrir og svo pabbi á móti "já já þetta er að koma, slappaðu nú aðeins af Guðjón Ingi". Annars er ég yfirleitt mjög duglegur að borða hafragrautinn minn en þolinmæði er ekki mín sterkasta hlið þegar kemur að mat ... já eða bara flestu :p Nú er pabbi að skræla fyrir mig epli því grauturinn var greinilega ekki nóg - og svo eru epli líka eitt það besta sem ég fæ. Kem líka beinustu leið inn til mömmu að sýna henni eplið "ebu, ebu" - ekkert smá montinn :) Pabbi keypti handa mér rosa sniðuga bók í gær þegar við fórum í Fields. Þetta er bók um Bangsímon sem spilar fullt af skemmtilegum lögum. Ma og pa er alveg viss um að bókin eigi eftir að vera í miklu uppáhaldi þar sem mér finnst svo skemmtilegt að hlusta á tónlist og dansa. Mamma keypti einmitt handa mér DVD disk í fríhöfninni um daginn sem heitir Sönvgaborg en þar eru þær Sigga Beinteins og María Björk ásamt nokkrum krökkum að syngja íslensk lög. Ég hef fengið að horfa/hlusta nokkrum sinnum á hann og dilla rassinum í takt við lögin fyrir framan sjónvarpið :)"

Úr Skaftahlíð í Skarðshlíð

Hæ, hæ.

Við erum að því er kalla má sambandslaus við umheiminn þessa dagana. Við búum hjá tengdapappa í Ystu-Vík og tengjumst netinu í gegnum gamaldags innhringi módem. Ég er löngu búinn að gefast um á því að fara á netið heima.

Þetta stendur þó allt til bóta því við fáum afhenta nýju íbúðina okkar í Skarðshlíð 15 þann 1. des.

Jæja frúin komin að ná í mig þannig að lengra verður þetta ekki að sinni.

Heyrumst, Óli Dan.

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Afmæli

Hæhæ

mér var bent á að það vantar heimilisfangið á bloggið svo fólk viti hvert það á að mæta. Stórveislan verður haldið að Laufengi 6 í grafarvogi. Mikið verður um veitingar og get ég varla beðið eftir að frúin byrji að bretta upp ermar í eldhúsinu.

Hlakka til að sjá allt liðið

Kveðja
Unnar Óli

Framhald

Sæl aftur. Þá er að halda áfram. Myndin komin inn með smá hjálp frá tölvuspecalist Hampiðjunnar. Þarna sjáið þið okkur hjónin með rokkarahjónunum á toppi Kedelstein við Berchtesgaden þar sem Helga vinkona býr. Húsið er Arnarhreiðrið hans Hitlers. Útsýni er ægifagurt af toppnum. Við fórum saman í velheppnaða ferð í sumar. Við 3, ég Biggi og Donni flugum til Frankfurt Han og sóttum svo Maggý til Frankfurt. Keyrðum þaðan til Helgu vinkonu og áttum 5 yndislega daga hjá henni. Keyrðum þá til Vínarborgar að hitta Jóhann Einar sem var að enda 4 mánaða dvöl sína þar v/listanámsins sem hann er í. Þá keyrðum við niður til Garda og vorum þar í 4 daga. Það er svo fallegt við Gardavatnið. Þaðan skiluðum við Maggý aftur upp til Frankfurt og við hin fórum til Frankfurt Han og hittumst við svo aftur í fríhöfninni. Mjög skemmtileg ferð hjá okkur. Ég læt fylgja með heimasíðuna hennar Helgu vinkonu. Það er alveg yndislegt að gista hjá henni og ekki spillir fyrir að finna fjósalyktina. Þá er eins og maður sé komin í sveitina. http://www.friedwiese.de
Eins og þið hafið séð erum við systkinin öll ásamt mökum að plana ferð til Lyon til Huldu og Þórs næsta sumar. Það er nú aldeilis spennandi.
Bestu kveðjur til allra. Unnur

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Útlitsbreytingar

Svo mikill hefur hamagangurinn verið síðustu daga að við höfum hreinlega vaxið upp úr gamla útlitinu okkar sem þó var ekki nema viku gamalt. Þar sem svo margir hafa þegar meldað sig inn fann ég annað sniðmát sem hentar okkur mun betur. Ég er líka byrjaður að safna hlekkjum í "Arfurinn" hérna vinstra megin þar sem öll börnin fá tengla í síðurnar sínar. Ef það vantar einhverjar síður eða þið viljið bæta við einhverjum hlekkjum þá er bara að senda á mig línu og ég hendi því inn.

Enn og aftur til hamingju með bloggsíðuna. Haldið áfram að skrifa (sérstaklega Jonny Rocker - ekki veitir af celebs hingað inn!)

Jonni

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Unnur komin inn

Komið þið sæl öll sömul. Jónathan hjálpaði mér eins og systrum mínum svo nú er að prófa sig áfram. Ætla að finna mynd til að setja inn. Um að gera að reyna hvað maður getur. Sjáumst kannski á sunnudaginn í afmæli Stefáns Mána. Við hjónin förum ásamt rokkara-hjónunum í sælureitinn um helgina og komum svo væntanlega við í Laufenginu á heimleiðinni á sunnudaginn. Bestu kveðjur,
Unnur

mánudagur, nóvember 14, 2005

Donni bró rokkar feitt

Sæl öll sömul. Jonny Rocker og stórbloggari er kominn á netið. Nú verður bloggða maður lifandi.
Þar sem við fjölskyldan fylgjumst með framgangi tónlistarmannanna í fjölskyldunni bæði til orðs og æðis á ljósvakamiðlunum ásamt aðdáendum, tel ég rétt að kynna til sögunnar Jonny Rocker ásamt aðdáanda nr. 1 sem vægast sagt liggur í töffaranum þegar hann treður upp. Því er myndin sett á toppinn.
Annars hélt ég ekki að ég hefði náð að skrá mig inn í morgun þegar ég gekk í þetta mál. Fékk alltaf einhverja meldingu um að þetta hefði ekki gengið. Kastaði þessu þá frá mér og gaf dauðann og djö.. í þetta allt saman. Svo þegar Jónatan sendi upplýsingar um hvernig á að blogga og innskráningin virtist vera pís of keik, þá ákvað ég að gera aðra tilraun og viti menn, skráningin í morgun hafði gengið upp og ég kominn með aðgang. Alltaf með tökin á tækninni sá gamli.
Nú ætla ég að sjá þetta birtast á síðunni áður en lengra er haldið í frekari skrifum.
Donni bró

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Súsannan mætt

Elskulega fjölskylda, SMG er online. Unnur drakk tebolla hjá mér í morgun og færði mér alls konar fréttir af blogginu svo að ég sá að þetta er meiriháttar virk síða sem nauðsynlegt er að tékka á 5 mín. fresti. Er á kafi í unglingavandamálum og slíku sem ekki er gaman að blogga um nema í undantekningartilfellum. Vildi stundum vera langt í burtu - skelli inn einni mynd frá síðasta skreppi (ef það tekst): Bledvatn í Slóveníu, Paradís á jörðu. Kem sterk inn þegar ég verð í stuði.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Afmælisveislan mikla


Jæja komið öll sæl og blessuð og til hamingju með þennan nýja íverustað!
Þetta er einkar góð tímasetning því nú er komið að afmælinu hans Stefáns Mána. Strákurinn að verða tveggja ára!...ótrúlegt! Það er öllum boðið sem vilja koma og það er reiknað með því að allir vilji koma þannig að öllum er boðið.Veislan verður þann 20. nóv og mæting...ja...segjum kl 15:00. Ef þið af einhverjum óskiljanlegum orsökum komist ekki (Verandi staddur í öðru landi eða hinu megin á þessu landinu er skiljanlegt(og þar sem það er eitthvað lítið um smiði fyrir utan mig og Gest þá getur enginn notað afsökunina "Ég verð að vinna" því enginn nema smiður er nógu vitlaus til að vinna á sunnudegi)) látið mig þá endilega vita annað hvort hér á blogginu eða á e-mail unnar05@ru.is sem er mailið mitt á meðan ég verð í skólanum.

Endurkoman mikla

Í dag komum við fjölskyldan aftur til Íslands í óvænta heimsókn. Ástæðan var upphaflega vinnulegs eðlis hjá Jonna en ákváðum við að fara bara öll saman heim þar sem við vorum farin að hafa virkilegar áhyggjur af geðheilsu Helgu Ömmu, enda ekki búin að sjá eina barnabarnið sitt í 3 mánuði. Flugferðin gekk svona bærilega, Guðjón Ingi var allt í öllu og neitaði með öllu að fara að sofa. Hann gafst þó upp að lokum og lúllaði í uþb klukkutíma áður en hann vaknaði aftur til að hrella sætis nágranna sína í flugvélinni.

Við löbbuðum svo inn í Öndvegi til mömmu og datt bókstaflega af henni andlitið þegar hún sá okkur standa fyrir fótum sér. Þetta var "Kodak moment" eins og þeir kalla það ...

Guðjón Ingi er með heimsóknartíma alla virka daga fram á Sunnudag fyrir þá sem vilja, bara að hafa samband við Helgu ömmu hans :)

Klaka kveðja,

Jonathan & Co.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Frá Gutierrez fjölskyldunni

Það er helst að frétta af Guierrezunum að Gestur er búinn að vera viku á leikskóla og finnst alveg svakalega gaman. Hann kveður ekki einu sinni pabba sinn á morgnana, honum liggur svo á að fara að leika sér, og þegar ég sæki hann þá heilsar hann mér jú, ef hleypur svo aftur inn!

Annars var Saúl að koma heim frá Nicaragua, var þar í tvær vikur. Gestur átti mjög bágt á meðan og saknað pabba síns mikið. Það var líka mikil gleði þegar hann kom og þótt hann sé búinn að vera heima í rúma viku þá má hann ekki enn fara á klósettið og loka á eftir sér - þá grætur Gestur.

Vitið þið hvað? Ég held að ég eigi bara eftir að skrif á þetta öðru hverju og vona svo sannarlega að þið gerið það líka. Góð hugmynd Jonathan!

Fyrsta bloggið

Þá hef ég formlega byrjað að blogga fyrir hönd fjölskyldunnar. Fleiri og fleiri fjölskyldumeðlimir hafa lagt land undir fót og eru nú annað hvort fluttir út á land eða jafnvel haldið á vit ævintýranna í fjarlægum löndum. Tilgangur þessarar síðu er því að safna saman sem flestum fjölskyldumeðlimum og halda utan um dagbók svo við getum fylgst með ferðum hvors annars í hinu daglega amstri. Ég hef tekið eftir því að móðir mín og systkini skrifast mikið á í gegnum tölvupóst og er það ósk mín að eitthvað af þeim skrifum rati hingað inn á síðuna.

Með von um góða þátttöku,

Jonathan frændi