mánudagur, febrúar 27, 2006

Öskudagur

Í gær fór Guðjón Ingi á sitt fyrsta öskuball. Ballið fór fram á Solbakken, sem er hérna ekki svo langt í burtu (þar sem runi og Heiðrún eiga heima). Stór hópur af íslenskum, dönskum og færeyskum börnum var þar kominn saman til að lemja köttinn úr tunnunni. Guðjón Ingi fór auðvitað í líki besta bangsans síns, Berta ljóns. Svo var haldin vegleg kökukeppni (sem Heiðrún vann með yfirburðum!) og þar næst búningakeppni. Skemmtu sér allir konunglega og sumir örugglega farnir að hlakka til næsta árs :)

Á myndinni má sjá Ástþór Inga "Spiderman", Guðjón Inga "Snuddu-ljón" og Kristján Daða áður en haldið var á ballið :)

föstudagur, febrúar 24, 2006

Fjölskyldan fundaglaða

Ólafsbörnum finnst gaman að funda. Þau funda um allt sem þeim dettur í hug. Þau funda jafnvel um það að halda fund. Ólafsbörn eru því fundaglöð. Einn er sá fundur sem gleður þau meir en aðrir, það er að funda um sumarbústaðinn sinn, Akurgerði, sælureitinn í Borgarfirði. Eitt Ólafsbarna (sem sér allt í ferlum og hugsar í kössum, er m.ö.o. ferlega leiðinlegt barn, telur nauðsynlegt að fá ákvarðanir og niðurstöður út úr þessum fundum) tekur að sér að leiða fundinn áfram. Hin fylgja með oft upptekin af fleiru, eru á mörgum fundum í einu. Dæmigerður bústaðarfundur gæti verið á þessa leið:

Sá leiðinlegi: Jæja ég set þá fund og spyr hvort fundargerð síðasta fundar sé samþykkt?
Systir: Ha hvaða fundargerð? Er hún eitthvað merkilegri en hinar? Já elskan mín við samþykkjum hana auðvitað, er þetta ekki alltaf svo ákkúrat hjá þér?
Sá leiðinlegi: Þá göngum við til dagskrár. Við ræðum fjármál síðasta árs. Gjaldkeri hvað er til í sjóð...........
Systir: Gasalega er lekkert á þér hárið! Varstu að setja í það stípur eða hvað?
Sá leiðinlegi: Við erum hér að ræða bústaðamálefni reynum að halda okkur við það. Framkvæmdir í sumar. Við ætlum að halda áfram með vinnuna við.....
Systir: Góð þessi kaka hjá þér. Gefðu mér endilega uppskriftina ég á nefnilega að halda saumaklúbb með vinkonunum og vantar svo....
Sá leiðinlegi: Má ég vekja athygli fundarmanna á því að við erum að funda um sumarbústaðarmálefni. Nú það voru framkvæmdirnar já, hafiði eitthvað til málanna að leggja hvað það varðar? Við þurfum endilega að klára....
Systir: Vitiði að mammennar Védísar vinkonu var lögð inn um daginn, alveg ferlega veik. Eitthvað í lungunum og svo er að hrjáana.....
Svona mjakast fundirnir áfram og allir una glaðir við sitt. Að lokum er kominn langur listi yfir vonir og væntingar varðandi framkvæmdagleði barnanna og þau himinsæl. Hafa afgreitt öll sín helstu mál á einnri langri kvöldstund, því í fundina þarf að ætla góðan tíma.
Slíkan fund héldur Ólafsbörn síðast í gærkvöldi. Þar var að venju margt til umræðu og langur listi framkvæmda og margar hugmyndir reifaðar.
Eitt var það sem ritara félagsins var falið að koma á framfæri nefnilega, að Ólafsbörn hafa af alsnægtum sínum ákveðið að ljá aftur þriðju og fjórðu kynslóð bústaðinn til afnota líkt og sl. sumar. Skal miða við helgina sem hefst 30. júní. Ólafsbörn munu auðvitað ekkert skipta sér af framkvæmd hátíðarinnar, verði til hennar stofnað, frekar en í fyrra.
Er þess vænst að tilkynnig þessi sé hér með orðin heyrum kunn þótt lesendur þurfi að lesa sig gegnum tafsið hér að framan, en slíkt þarf að fylgja með til að skiljist að ákvörðun sem þessi er ekki bara "bob sumarbústaður!"
Ritari

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Dagarnir líða

Þá ætla ég loksins að hrista upp í þessu og bæta við færslu. Það er búið að ganga svo mikið á undanfarið að það hefur varla gefist tími til að blogga almennilega. Það verður því lagfært hér og nú.

Dagarnir líða hjá einn af öðrum og ekki ljóst við að maður sé aðeins farinn að hlakka til vorsins. Það kemur nefnilega mun fyrr hér í Kaupmannahöfn heldur en á Íslandi. Þó er ennþá kalt úti og verður vetrarflíkunum sennilega ekki pakkað niður fyrr en í mars/apríl.

Við Erla heimsóttum Ísland þann 1. febrúar og vorum í viku. Upphaflega ætlaði Erla að fara ein í brúðkaup Árnýar (vinkona hennar) og Jóhanns en vegna aðkallandi verkefnis í klakaboxinu var ég kallaður heim á sama tíma til að vinna. Ég fékk því að fara í brúðkaupið eftir allt saman sem heppnaðist alveg einstaklega vel. Verst var þó að ég missti af afmælinu hans ladda félaga sem varð einu skrefi nær þrítugu þann 2. febrúar.

Helgin sem leið var mjög viðburðarík. Á laugardeginum vaknaði ég snemma til að taka strætó upp í Gladsaxe þar sem fram fór árlegt innanhúsmót í fótbolta á vegum Icelandair. Þar var margt um manninn og yfir 10 lið sem tóku þátt. Það er skemmst frá því að segja að lið mitt Guðrún I (þau voru tvö liðin frá Guðrúnu) komst alla leið í úrslitaleikinn sem svo vannst eftir æsispennandi vítaspyrnukeppni við lið Silfurrefana (Kagså). Tilfinninginn við það að sjá síðasta boltann fara inn í netið og þannig tryggja okkur sigur var ólýsandi. Ekki var verra að vinna inneign hjá Icelandair að andvirði 20 þús. kr. heldur :)

Um kvöldið var blótið mikla á Nimbs í Tívolí. Íslendingafélagið stóð fyrir risa þorrablóti þar sem mikið af fólki var komið saman til að blóta í bak og fyrir. Allur matur var að sjálfsögðu innfluttur frá klakaboxinu Íslandi og var hægt að gæða sér á hangikjeti með uppstúf, hákarli, brennivíni, hrútspungum ofl. ásamt ekta íslensku lambakjeti.

Á sunnudeginum vöknuðum við svso óvenju snemma (þrátt fyrir þynnku) og mældum okkur mót við Runa og Heiðrúnu í dýragarðinum. Þau höfðu nefnilega haft Gugga Pop í næturpössun nóttina áður. Ekki verður maður svikinn af dýragarðinum því þar er alltaf nóg að sjá. Að vísu var "nýji" ísbjörnin ekki til tals sem mér þykir miður þar sem ég var farinn að hlakka til að bera hann augum í fyrsta skipti.

Vinnan gengur vel. Er búinn að eyða vikunni niðri í Amalieborg og er þar að vinna með Íslandsbanka teyminu í augnablikinu. Það er gott að komast út úr húsinu aðeins. Auðvelt að vera smá þunglyndur í versta skammdeginu :)

Jæja, best að halda áfram að vinna.

Kveðja,

Jonathan & Co.

mánudagur, febrúar 06, 2006

Síðbúin afmæliskveðja

Elsku Unnar Óli
Til hamingju með daginn í gær. Vonandi hefur þú átt góðan dag og þið feðgar búnir að ná ykkur af veikindunum. Sjáumst.
Unnur frænka