föstudagur, júní 30, 2006

Fjölskyldan talnaglaða

Eins og vel er vitað hefur þessi ágæta fjölskyla gaman af tölum. Þess til sönnunar þarf aðeins að opna tölfræðibókina góðu uppi í Akurgerði ...

Að baki blogginu okkar liggur nú öflugur teljari sem fylgist vel með öllum gestum sem hingað leggja leið. Þótt aðeins sé liðin rétt rúm vika frá því að mælingar hófust þótti mér við hæfi að deila með ykkur fyrstu tölunum.

Síðustu 7 daga hafa 142 gestir heimsótt síðuna og fóru fram 303 flettingar. Skiptingin er eftirfarandi:

Ísland: 124

Gullbringusýsla
1. Reykjavík: 82
2. Kópavogur: 26
3. Stóra-Vatnsleysa: 14
4. Garðabær: 1

Eyjafjarðarsýsla
1. Akureyri: 1

Frakkland: 9

Danmörk: 5

Bandaríkin: 2

Bretland: 1

Belgía: 1

... og þar hafið þið það :)

miðvikudagur, júní 28, 2006

Una Helga (19) á afmæli í dag

Elsku frænka
Til hamingju með daginn. Vona að þið frænkurnar hafið skemmt ykkur vel með STÓRA bróður og STÓRU frændunum um helgina. Áttu góðan dag. Það er allavega fallegt veður.
Unnur frænka

mánudagur, júní 26, 2006

"Þettel flábælt!"

mælti Gestur Dirangen (2) þegar hann leit yfir Ólafsvelli á laugardaginn þar sem frændfólk hans spilaði fótbolta og sleikti sólskinið, en sápukúlurnar þyrluðust frá Álfheiði Unu (3) og Hafsteini Yngva (2). Jóhann Einar (23) hélt áfram að fagna þeirri gæfu að fá nú að fara að vinna að gerð líkhúss í Grafarvogi en Una Helga (18) drakk af viskubrunni Gerðar (36) sem hefur marga fjöruna sopið hvað varðar utanlandsferðir nýlega eins og fram hefur komið á þessari síðu. Súsanna Margrét (39), expert chez le Conseil d'Europe (á nafnspjald til sönnunar), var sú eina af þessu hörkuliði sem henti sér í döggina þegar líða tók á Jónsmessunótt ("Rallhálf í runna") og náði þar fágætu jarðsambandi sem nýtast mun til góðra verka næsta árið. María (28) gat ekki gleymt meistaranámi sínu í bókmenntafræði eitt augnablik og eyddi því drjúgum tíma í að greina skáldverkið "Ástir aðstoðarlæknis á háls-, nef- og eyrnadeild" en það rit hefur alls ekki hlotið þá athygli sem því ber með réttu. Fulltrúar landsbyggðarinnar, Ólafur Daníel (31) og Jóna Bergþóra (31), stóðu sig manna best í eldamennsku á föstudagskvöldinu en varð heldur betur á í messunni þegar þau lögðu af stað í bæinn næsta dag: Kl. 15:15 uppgötvaði Ólafur að hann hafði gleymt sólgleraugunum sínum og hringdi í föður sinn, Jón (53). Kl. 15:16 fann Jóhann Einar gleraugun. Kl. 15:17 var hringt í Ólaf til að færa honum fréttirnar. Fjölskyldunni tókst sem sagt að leysa málið á tveimur mínútum sléttum.

Vonandi verðum við ennþá fleiri saman að ári - því að eins og ég hef nefnt áður er ómetanlegt að eiga fjölskyldu sem maður ekki aðeins nennir að eiga samskipti við heldur finnst beinlínis bráðskemmtileg.

Myndir frá Nicargua o.fl.

Þakka hlýhug í garð bóndans sem vill sem minnst vita af afmælinu - honum finnst hann vera svo gamall....
Helgin var góð og notarleg samvera sem við áttum saman þótt lítið færi fyrir formlegri dagskrá.
En ég vil láta ykkur vita að loksins eru komnar nýjar myndir á Barnaland og þær eru úr Nicaragua ferðinni. http://www.gdg.barnaland.is/

Og Saul á afmæli í dag

Hamingjuóskir með daginn í dag kæri Saul. Vonandi áttu góðan dag og vonandi var gaman hjá ykkur í Akurgerðinu þó það hafi verið stutt stopp hjá sumum. Bið að heilsa frúnni og litla kallinum.

fimmtudagur, júní 22, 2006

Nakin í dögginni ...

Ég stenst ekki mátið að benda (frænd)systkinum mínum á þá staðreynd að aðfararnótt laugardags er JÓNSMESSUNÓTT. Nú gefst sem sagt fágætt tækifæri til að velta sér nakin upp úr borgfirskri dögg eftir miðnætti og endurfæðast þar með á allan hátt. Með þessa staðreynd í huga hyggst ég bruna í Akurgerðið á föstudegi, hlakka til að hitta þar fyrir Óla Dan group og skora á fleiri að nýta sér þetta einstaka tækifæri. Eldri kynslóðin getur kannski bent á góðan blett á landareigninni sem er ekki í augsýn nærsveitarmanna?

mánudagur, júní 19, 2006

Donni á afmæli í dag



Elsku stóri bróðir.

Til hamingju með daginn. Mátti til með að senda mynd af ykkur mágunum síðan í France.

Hafðu það gott og njóttu dagsins.

Þín Unnur

Sjaldséðir eru hvítir hrafnar og Óli Dan á blogginu

Jæja ég skrattaðis loksins til að ná mér í nýtt lykilorð á bloggið þar sem mér var algerlega frábeðið að muna það sem ég valdi forðum daga.

Af okkur er náttúrulega allt það besta að frétta og lifum við sem blóm í eggi norður á Akureyri. Vorum að koma frá Raufarhöfn þar sem við vorum viðstödd skýrn á tvíburunum Rafael og Elías sem eru systursynir Jónu. Nú er hún orðin guðmóðir þeirra og um leið helming barna þeirra systra ef ég man rétt.

Hvað varðar ættarmót þá skiptir það okkur ekki öllu hvoru megin það lendir við mánaðarmótin við verðum í báðum tilfellum á ferðinni á suðvesturhorninu. Við getum reyndar ekki lofað fullri þáttöku fram á laugardagskvöld. Við mundum koma á föstudegi og gista og dvelja eitthvað fram á laugardaginn.

Mamma gamla er nefninlega að útskrifast sem kennari um næstu helgi og verður með eitthvað húllum hæ í bænum. Mánudaginn eftir þrjár helgar erum við svo á leið til Spánar og gætum náð tveimur ættarmótum með góðri skipulagningu ef ákveðið verður að halda það þá. Fjölskylda Jónu er þá með ættarmót í Sandgerði en við myndum reyna að kíkja á báða staði.

fimmtudagur, júní 15, 2006

Ferðin til Lyon

Löngu hefur verið boðað hér á Akurgerðissíðunni að "Fjölskyldan ferðaglaða" hyggði á ferð til hjarta Frakklands, sem er land sem nú hýsir systur systkinanna, Duddubarn, og hennar ektamaka, lærimeistara franskra og ljóðskáldið góða Þór Stefánsbur. Fór jafnvel sá, er þennan pistil færir á alhemsnetið, forðum á algert flug hér á síðunni í væntingum sínum til ferðarinnar. Það var svo Dudda Group Travelbureau, en það er þekkt ferðaskrifstofa í Lyon, sem Johnny Rejser, ferðaskrifstofan hér heima, sem skipulagði ferðina heiman og heim ásamt samningagjörð allri við hótel og aðra ferðaaðila í Lyon, réðu til að annast um skipulag og daglegar ferðir meðan á ferð systranna ásamt bróður og mökum þeirra stóð. Óþarf er að fjalla um framlag Johnny Rejser, allir sem til þekkja vita að þar ráða ferð ofurmenni á sínu sviði. Hitt var sínu ánægjulegra að hin líttþekkta ferðaskrifstofa hér heima, DGT, sem við höfðum aðeins heyrt um af afspurn þeirra sem notið höfðu leiðsagnar hjá, sendi okkur skipulag þeirra daga sem við ætluðum að dvelja í Lyon. Er engu logið þegar ég segi, að ég hefði alls ekki getað gert betur í skipulagningu á ferð þar sem tekið er tilliti til allra þátta mannlegra væntinga til ferðar sem þessarar.
Eins og við var að búast kom framkvæmdastjóri DGT hingað upp á Ísalandið og sótti okkur hreinlega og fylgdi út til Lyon um Standsted flugvöll. Dagarnir liðu svo í nánast þægilegum draumi, góðu veðri, fallegu umhverfi og auðvitað frábærum félagsskap. Sé stiklað á stóru, okkur gamlingjunum til upprifjunar, þá fór miðvikudagurinn 24. maí í ferðina út undir stirkri leiðsögn fararsjórans Duddu barns og endaði í velkomstdrykk og kvöldverði hjá hennar ektamanni.


Daginn eftir voru þau hjón mætt og tóku okkur upp í hæðirnar yfir gamla bænum þar sem við litum á rústir eftir Rómverja, en þeir stofnuðu til þessarar borgar fyrir margt löngu, þar sem hún lá vel við samgöngum á ármótum Rhóne og Saóne. Fegurð systranna kallaðist á við formfegurð þessara glæstu mannvirkja sem Rómverjar létu eftir sig þarna.

Svo var Maríukirkjan skoðuð, sú fyrsta af fjölmörgum sem við áttum eftir að njóta kyrrðar og svala í á ferðum okkar. Við skoðuðum æfaforn húsaport og fengum okkur hið mjög svo rómaða Lyonesse-salat. Sumir þurftu þó ávallt að "vera í góðu sambandi."


Að afloknum kvöldverði var frjáls drykkja, en mikið var mjaðarins notið.

Daginn eftir var farið í Téte d'or garðinn. Þýddi þetta ekki Gullna hliðið? Það var allaveganna gulli slegið hliðið að garðinum. Var þarna notið alls þess sem piknik-túr hefur upp á að bjóða, gott brauð með ostum og patéum og rauðvíns gnógt, enda nutum við þess í góða veðrinu. Sumir þurftu raunar að kalla: "Valgerður! Hvar er vínglasið mitt", og þá hugsaði mín, "Nú vill hann að ég komi og kyssi sig.......", eða þannig var það nú í den.

Við þurftum auðvitað að vera í góðu sambandi við umheiminn meðan á dvöl okkar stóð og textinn sem var sendur sem sms-skilaboð allt til stranda ísakalds ættlands vors, eða til fyrrum höfuðborgar vorrar í Danaveldi og jafnvel til heitra eyja í gríska eyjaklasanum var eitthvað á þessa leið: "Höfum átt hér yndislega daga í yndislegu veðri, jöklarnir skörtuðu sínu fegursta...."

Já við vorum sólskinsbörn, Fjölskyldan ferðaglaða, í þessum túr og blómadýrðin sem umlék okkur í garðinum gulli slegna var einstök.Næsta dag, þ.e. laugardeginum, var varið í heimsókn til fararstjóranna og þau fögnuðu okkur við komuna og framkvæmdastjóri DGT leiðsagði okkur um þorpið þeirra.

Við fórum svo í "garðinn þeirra" þar sem skáldið las úr verki sínu hughrifin af veru sinni sitjandi á bekk á þessum stað.

Þessi dagur endaði svo í dýrðlegum fagnaði á heimili fararstjórannna, sem spörðuð á engann hátt að bera í okkur mat og drykk, og það e.t.v. frekar að hætti okkar mörlandanna en franskra sem rétt dreipa á þrúgum héraðsins á stundum sem þessum.

Þá tók við sveitarferð á sunnudeginum. Farið með lest frá Lyon til "Fagrabæjar" í sunnanverðu Beaujolaishéraði og litið eftir hvernig vínrækt bænda gengur þetta árið. Var ekki ónýtt að þyggja flösku af góðum Beaujolais úr framréttri hendi innfæddra.

Á mánudeginum var skipt liði. Leiðsegjarinn fór með systurnar í verslanir til að létta á þörf þeirra til að fitla við franskan varning. Segir ekki frekar af ferð þeirra systra ásamt mákonu sinni, þó náðist mynd af einni í skóleiðangri. Voru þær að vonum ánægðar með þennan dag og uppskeru hans. Við karlpeningurinn héldum til sveita að skoða fegurð landsins og njóta þess sem þar er í boði. Skal litlum texta varið hér í leiðarlýsingu og rötun okkar um nærsveitir Lyonborgar, en fagra sáum við dali og græna ása. Við fengum okkur hádegisverð, á veitingastað sem kenndur er við þann sem þetta færir í letur, Le Donjon, í miðaldaþorpinu Oingt. Í forrétt voru forðum hraðfara kanínuleggir, í aðalfétt hinir laufléttu frönsku froskafætur ásamt mjóhrygg og í eftirrétt auðvitað frönsk súkkulaðikaka. Vínið var svo úr þrúgum búgarðsins við hliðina á þorpinu, öndvegisgóður Beaujolais, nema hvað.


Nú var farið að líða að lokum þeirrar sælu sem við höfðum orðið aðnjótandi þessa daga og einungis sameiginlegur kvöldverður eftir áður en leiðir skildu og fararstjórar héldu heim í hérað og við aftur til okkar ísakalda ættlands. Þó átti eftir að halda ræður, færa gjafir og faðmast.


Hafi LJÓNIÐ og hennar ektamaki kærar þakkir fyrir að gera þessa ferð okkar ógleymanlega.

Fyrir hönd okkar sem að heiman fóru,

Donni bró, ritari stjórnar Akurgerðis.

miðvikudagur, júní 14, 2006

Hitabylgja, ströndin og daglega lífið


Sæl nú.

Þá ríður yfir bjórglaða Danina fyrsta hitabylgja sumarsins. Ekki förum við litla fjölskyldan í Frederiksberg varhluta af hitanum og er það nú orðið fyrsta verk dagsins að fara inn í eldhús og kíkja á hitamælinn. Tveggja stafa tölur kl. 8 á morgnanna er nokkuð sem Íslendingar eru ekki vanir að sjá.

Helgina nýttum við okkur til að fara norður eftir Sjálandi og til Klampenborg. Þar er staðsett ein besta baðströnd Danmerkur og er hún alltaf mjög vel sótt, sérstaklega yfir heitustu mánuðina. Við komum okkur fyrir á teppi og handklæðum og sprautuðum yfir hvort annað sólarvörn 30 eins og það væri enginn morgundagur. Þarna láum við og dúlluðum okkur á milli þess sem við fórum í sandinn og niður að sjónum sem var í kaldara lagi þennan daginn (enda bara byrjun á júní). Nóg var af fólki og allir greinilega mjög ánægðir að sjá sólina loksins eftir annars blautan maí mánuð. Sumir voru jafnvel full ákvafir og höfðu ákveðið að fara úr öllu og flagga í heila sólinni til heiðurs. Flestir reyndar að skíða yfir sjötugs aldurinn .... say no more.

Eftir hæfilega langa legu á ströndinni löbbuðum við yfir í Bakken sem er staðsett þarna rétt hjá. Liltu gaurarnir (Runi og Heiðrún voru auðvitað með) lögðu sig aðeins eftir annasaman morgun á meðan við fullorðna fólkið skoðuðum bjórdælurnar á svæðinu. Þegar allir voru vaknaðir og orðnir hressir var farið í "bílana" og auðvitað "endurnar" sem snúast í hringi. Veðrið hélt auðvitað áfram að gæla við okkur og hitastigið orðið hættulega nálgt 30 gráðum sumstaðar.

Seinnipartinn fórum héldum við svo á stað heim en gerðum stopp í miðbænum þar sem við settumst á lítinn ítalskann veitingastað og gæddum okkur á pasta og pizzum. Virkilega góður endir á góðum degi.

Annars er allt gott að frétta af okkur fjölskyldunni. Erla er í óða önn við að klára ritgerðina sína og ætlar að skila henni á morgun. GI gengur svo vel hjá Lotte og líður greinilega mjög vel hjá henni. Hún er mikið með barnabarnið sitt sem heitir Eleane og er ný orðin 4 ára. Þau eru voðalega góðir vinir og gaman fyrir GI að hafa smá félagsskap yfir daginn. Sjálfum gengur mér mjög vel í vinnunni og er upptekinn sem aldrei fyrr.

Þann 11. júlí (eftir tæplega mánuð!!) höldum við svo á vit ævintýranna á Tenerife. Mikið hlakkar okkur til enda aldrei farið saman til útlanda sem fjölskylda. Það verður fínt að slaka á við sundlaugabakkann með coctail í annari og sóláburð í hinni.

Væri gaman að heyra frænkum mínum og frændum, hvað er að gerast og svona :)

Hilsner frá sunny köb!

Jonathan frændi

P.S Á myndinni er Guðjón Ingi að kyssa Bölle (risa bangsann sem hann fékk frá Anette í afmælisgjöf).

föstudagur, júní 02, 2006

Fra Gerdi i New York

Erum i millistoppi i New York og nuna ad bida eftir thvi ad fara ut a flugvoll. Vid fengum husid i Nicaragua fyrir rest en gatum ekki flutt inn i thad tvhi thad atti ad taka 20 daga ad koma rafmagninu i thad! En vid keyptum allt i thad og tengdo aetladi ad flytja i gaer, thratt fyrir rafmagnsleysi. Saul gat heldur ekki gengid endanlega fra lagalegu hlidinni og thurfti ad undirrita einhverja outfyllta pappira.... pinu nervus yfir thvi en vonandi er logfraedingurinn traustsins virdi.
Eg var daudfegin ad fara fra Nicaragua en a sama tima vildi eg vera thar miklu lengur - bara ekki a hotelum og i endalausum reddingun og barattu vid skriffinnskuna. Gesti hefur farid alveg otrulega mikid fram i spaensku, skilur augljoslega miklu meira og talar alveg helling nuna. Vid komum hingad til NY fyrir tveimur solarhringum og thad er eins og hann se enn ad vinna ur thvi sem hann laerdi i Nicaragua thvi thad er stodugt ad baetast i ordafordann hja honum. En hann er allur uti i exemi eftir svita og moldarryk og lika allur uti i skordyrabitum. Hann var mjog hamingjusamur tharna, serstaklega a svaedinu i kringum husid okkar. Tibiskt nybyggingarsvaedi med fullt af spennandi drasli, drullu og stillonsum. Einn daginn leit eg af honum i 30 sek og tha var hann kominn upp einn stillansinn! Afskaplega orkumikill... En honum letti greinilega vid ad koma hingad thar sem er bara rett yfir 20 stiga hiti.

Thad verdur gott ad koma heim, thott urslyt borgarstjornarkosningana dragi adeins ur gledinni.

Hlakka til ad sja ykkur flest oll fljotlega.
Gerdur