fimmtudagur, júní 15, 2006

Ferðin til Lyon

Löngu hefur verið boðað hér á Akurgerðissíðunni að "Fjölskyldan ferðaglaða" hyggði á ferð til hjarta Frakklands, sem er land sem nú hýsir systur systkinanna, Duddubarn, og hennar ektamaka, lærimeistara franskra og ljóðskáldið góða Þór Stefánsbur. Fór jafnvel sá, er þennan pistil færir á alhemsnetið, forðum á algert flug hér á síðunni í væntingum sínum til ferðarinnar. Það var svo Dudda Group Travelbureau, en það er þekkt ferðaskrifstofa í Lyon, sem Johnny Rejser, ferðaskrifstofan hér heima, sem skipulagði ferðina heiman og heim ásamt samningagjörð allri við hótel og aðra ferðaaðila í Lyon, réðu til að annast um skipulag og daglegar ferðir meðan á ferð systranna ásamt bróður og mökum þeirra stóð. Óþarf er að fjalla um framlag Johnny Rejser, allir sem til þekkja vita að þar ráða ferð ofurmenni á sínu sviði. Hitt var sínu ánægjulegra að hin líttþekkta ferðaskrifstofa hér heima, DGT, sem við höfðum aðeins heyrt um af afspurn þeirra sem notið höfðu leiðsagnar hjá, sendi okkur skipulag þeirra daga sem við ætluðum að dvelja í Lyon. Er engu logið þegar ég segi, að ég hefði alls ekki getað gert betur í skipulagningu á ferð þar sem tekið er tilliti til allra þátta mannlegra væntinga til ferðar sem þessarar.
Eins og við var að búast kom framkvæmdastjóri DGT hingað upp á Ísalandið og sótti okkur hreinlega og fylgdi út til Lyon um Standsted flugvöll. Dagarnir liðu svo í nánast þægilegum draumi, góðu veðri, fallegu umhverfi og auðvitað frábærum félagsskap. Sé stiklað á stóru, okkur gamlingjunum til upprifjunar, þá fór miðvikudagurinn 24. maí í ferðina út undir stirkri leiðsögn fararsjórans Duddu barns og endaði í velkomstdrykk og kvöldverði hjá hennar ektamanni.


Daginn eftir voru þau hjón mætt og tóku okkur upp í hæðirnar yfir gamla bænum þar sem við litum á rústir eftir Rómverja, en þeir stofnuðu til þessarar borgar fyrir margt löngu, þar sem hún lá vel við samgöngum á ármótum Rhóne og Saóne. Fegurð systranna kallaðist á við formfegurð þessara glæstu mannvirkja sem Rómverjar létu eftir sig þarna.

Svo var Maríukirkjan skoðuð, sú fyrsta af fjölmörgum sem við áttum eftir að njóta kyrrðar og svala í á ferðum okkar. Við skoðuðum æfaforn húsaport og fengum okkur hið mjög svo rómaða Lyonesse-salat. Sumir þurftu þó ávallt að "vera í góðu sambandi."


Að afloknum kvöldverði var frjáls drykkja, en mikið var mjaðarins notið.

Daginn eftir var farið í Téte d'or garðinn. Þýddi þetta ekki Gullna hliðið? Það var allaveganna gulli slegið hliðið að garðinum. Var þarna notið alls þess sem piknik-túr hefur upp á að bjóða, gott brauð með ostum og patéum og rauðvíns gnógt, enda nutum við þess í góða veðrinu. Sumir þurftu raunar að kalla: "Valgerður! Hvar er vínglasið mitt", og þá hugsaði mín, "Nú vill hann að ég komi og kyssi sig.......", eða þannig var það nú í den.

Við þurftum auðvitað að vera í góðu sambandi við umheiminn meðan á dvöl okkar stóð og textinn sem var sendur sem sms-skilaboð allt til stranda ísakalds ættlands vors, eða til fyrrum höfuðborgar vorrar í Danaveldi og jafnvel til heitra eyja í gríska eyjaklasanum var eitthvað á þessa leið: "Höfum átt hér yndislega daga í yndislegu veðri, jöklarnir skörtuðu sínu fegursta...."

Já við vorum sólskinsbörn, Fjölskyldan ferðaglaða, í þessum túr og blómadýrðin sem umlék okkur í garðinum gulli slegna var einstök.Næsta dag, þ.e. laugardeginum, var varið í heimsókn til fararstjóranna og þau fögnuðu okkur við komuna og framkvæmdastjóri DGT leiðsagði okkur um þorpið þeirra.

Við fórum svo í "garðinn þeirra" þar sem skáldið las úr verki sínu hughrifin af veru sinni sitjandi á bekk á þessum stað.

Þessi dagur endaði svo í dýrðlegum fagnaði á heimili fararstjórannna, sem spörðuð á engann hátt að bera í okkur mat og drykk, og það e.t.v. frekar að hætti okkar mörlandanna en franskra sem rétt dreipa á þrúgum héraðsins á stundum sem þessum.

Þá tók við sveitarferð á sunnudeginum. Farið með lest frá Lyon til "Fagrabæjar" í sunnanverðu Beaujolaishéraði og litið eftir hvernig vínrækt bænda gengur þetta árið. Var ekki ónýtt að þyggja flösku af góðum Beaujolais úr framréttri hendi innfæddra.

Á mánudeginum var skipt liði. Leiðsegjarinn fór með systurnar í verslanir til að létta á þörf þeirra til að fitla við franskan varning. Segir ekki frekar af ferð þeirra systra ásamt mákonu sinni, þó náðist mynd af einni í skóleiðangri. Voru þær að vonum ánægðar með þennan dag og uppskeru hans. Við karlpeningurinn héldum til sveita að skoða fegurð landsins og njóta þess sem þar er í boði. Skal litlum texta varið hér í leiðarlýsingu og rötun okkar um nærsveitir Lyonborgar, en fagra sáum við dali og græna ása. Við fengum okkur hádegisverð, á veitingastað sem kenndur er við þann sem þetta færir í letur, Le Donjon, í miðaldaþorpinu Oingt. Í forrétt voru forðum hraðfara kanínuleggir, í aðalfétt hinir laufléttu frönsku froskafætur ásamt mjóhrygg og í eftirrétt auðvitað frönsk súkkulaðikaka. Vínið var svo úr þrúgum búgarðsins við hliðina á þorpinu, öndvegisgóður Beaujolais, nema hvað.


Nú var farið að líða að lokum þeirrar sælu sem við höfðum orðið aðnjótandi þessa daga og einungis sameiginlegur kvöldverður eftir áður en leiðir skildu og fararstjórar héldu heim í hérað og við aftur til okkar ísakalda ættlands. Þó átti eftir að halda ræður, færa gjafir og faðmast.


Hafi LJÓNIÐ og hennar ektamaki kærar þakkir fyrir að gera þessa ferð okkar ógleymanlega.

Fyrir hönd okkar sem að heiman fóru,

Donni bró, ritari stjórnar Akurgerðis.

3 Comments:

Blogger Jonni said...

Þetta var nú aldeilis skemmtileg lesning fgæændi. Gaman að sjá hvað mæðurnar hafa tekið tækninni fagnandi hendi og lært að senda börnum sínum SMS :)

16/6/06 08:52  
Blogger Unnur María Ólafsdóttir said...

Elsku Donni minn. Mikið var þetta flott og skemmtilega sett upp. Við þurfum svo að fara að hittast og rifja upp ferðina. Hlakka til að ferðast aftur með þessum margrómuðu ferðaskrifstofum.

16/6/06 09:08  
Anonymous Nafnlaus said...

Sæl og blessuð góðu vinir og ættingjar úr Akugerðinu. Mikið var gaman að lesa ferðasöguna ykkar. Ég kíki af og til inn á síðuna og tékka á ykkur og það bregst ekki að hvern mánuð er einhver ferðasagan í gangi. Ég hugaði til ykkar þarna í Lyon héraði meðan við fjölskyldan fórum í letifrí til Benidorm 7. júní. Við komum svo heim á fyrsta þurra sólardegi landsins frá því við fórum út.
Ég sá að það vantaði ekki blómin kringum ykkur í ferðinni. Ég var svo ánægð með að sjá Sýrenuna mína blómstra í fyrsta sinn þegar ég kom heim. Hún er ættuð úr Akurgerðinu, mamma fékk afleggjara í garðinn í Bár og ég hjá mömmu. Ég var orðin úrkula vonar um að hún blómstraði nokkru sinni en nú gerðist það. Ég setti hana niður í gróðurhúsið mitt um 1980 og upp úr 1995 var það tekið niður og Sýrenan hefur tekið allan þennan tíma til að búa sig undir blómgun. Nafn hennar veit ég ekki en hún hefur slútandi blómskúfa á útsveigðum greinum. Liturinn virðist ætla að verða rauðlilla. Ég tek mynd í fyllingu tímans. Ef þið munið nafnið á henni megið þið láta mig vita. Hafið það gott og njótið sólarinnar og blómanna.
Sunna Njáls.

2/7/06 14:04  

Skrifa ummæli

<< Home