80 ár frá fæðingu Súsönnu Margrétar
Á þessum degi fyrir 80 árum fæddist hjónunum, Gunnari Njálssyni, bónda á Njálsstöðum í Árneshreppi á Ströndum, og konu hans Valgerði Guðrúnu Valgeirsdóttur, frumburður dóttir sem þau gáfu nafnið Súsanna Margrét. Hún ólst upp í fögru landslagi Stranda, þar sem lífsbaráttan var oft erfið. Kynntist hún ung sveini að sunnan, sem kom norður í hreppinn hennar til að vinna við uppbyggingu síldarverksmiðjunnar að Eyri við Ingólfsfjörð. Þessi piltur var Ólafur Ingi Jónsson og saman fluttu þau suður til Reykjavíkur. Þau giftu sig 18. október 1947. Hún var mjög rómantísk í hugsun, unni íslenskri sagnahefð, var elsk af ljóðum og kvæðum og miðlaði áhuga sínum til barna og barnabarna. Henni féll aldrei verk úr hendi var ávallt með eitthvað á prjónunum ef ekki var verið í eldhúsi eða annars staðar að sinna heimilisstörfum. Hún var réttsýn kona og laðaði að sér samferðafólk. Hún veiktist af þeim hræðilega sjúkdómi, heilabilun, og lést 30. apríl 2002. Blessuð sé minnig Súsönnu Margrétar Gunnarsdóttur.
Donni.