80 ár frá fæðingu Súsönnu Margrétar
Á þessum degi fyrir 80 árum fæddist hjónunum, Gunnari Njálssyni, bónda á Njálsstöðum í Árneshreppi á Ströndum, og konu hans Valgerði Guðrúnu Valgeirsdóttur, frumburður dóttir sem þau gáfu nafnið Súsanna Margrét. Hún ólst upp í fögru landslagi Stranda, þar sem lífsbaráttan var oft erfið. Kynntist hún ung sveini að sunnan, sem kom norður í hreppinn hennar til að vinna við uppbyggingu síldarverksmiðjunnar að Eyri við Ingólfsfjörð. Þessi piltur var Ólafur Ingi Jónsson og saman fluttu þau suður til Reykjavíkur. Þau giftu sig 18. október 1947. Hún var mjög rómantísk í hugsun, unni íslenskri sagnahefð, var elsk af ljóðum og kvæðum og miðlaði áhuga sínum til barna og barnabarna. Henni féll aldrei verk úr hendi var ávallt með eitthvað á prjónunum ef ekki var verið í eldhúsi eða annars staðar að sinna heimilisstörfum. Hún var réttsýn kona og laðaði að sér samferðafólk. Hún veiktist af þeim hræðilega sjúkdómi, heilabilun, og lést 30. apríl 2002. Blessuð sé minnig Súsönnu Margrétar Gunnarsdóttur.
Donni.
3 Comments:
Elsku amma mín. Til hamingju með afmælið.
Ég fæ kökk í hálsinn þegar ég hugsa til þín, allar minningarnar streyma aftur og ég minnist alls þess sem þú kenndir mér þegar ég var ungur að árum. Ég minnist þess þegar við spenndum saman greipar og fórum með bænirnar, að leika mér úti í garði í Akurgerðinu, hversu friðsæl þú varst þegar þú sast í stólnum þínum og prjónaðir. Þegar við horfðum á Derrik og Spaugstofuna saman með afa inni í sjónvarpsherbergi. Ég vildi bara óska þess að þú væri ennþá á lífi í dag svo sonur minn fengi að kynnast þess hversu yndisleg persóna þú varst.
Bið að heilsa afa uppi á himninum.
Kveðja,
Jonathan ("number one")
Elsku mamma.
Hugur okkr er hjá þér á þessum tímamótum.
Við héldum uppá 75 ára afmælið þitt fyrir 5 árum.
Við sátum systkinin í Laufrimanum í gærkvöldi og horfðum á upptöku úr afmælinu. Einnig horfðum við á upptöku frá 25 ára afmæli Kidda, en þar voru mamma og pabbi líka. Það var skrítið að sjá pabba því mánuði síðar dó hann.
Minning þeirra lifir í hjörtum okkar.
Unnur
Elsku mamma.
Ég hugsa til þín á þessum merku tímamótum.
Ég sé þig fyrir mér sitjandi við saumavélina í eldhúsinu í Akurgerði, nýbúna að máta á mig einhverja flíkina og ég búin að æpa og hlæja undan köldu fingrunum þínum og títuprjónunum sem snertu skinnið örlítið.
Kaldar hendur heitt hjarta, sagðir þú alltaf og það var rétt:
Þú hafðir heitt og gott hjarta og það var gott að eiga þig að.
Við Þór biðjum að heilsa öllum sem fagna með þér í dag.
Þín Hulda
Skrifa ummæli
<< Home