fimmtudagur, janúar 26, 2006

Lífið í Kaupmannahöfn

Ég ákvað seint í gær að byrja daginn á vænlegri bloggfærslu hér á Akurgerði. Svo virðist sem flestir hafi legið í dvala yfir hátíðarnar og skil ég það mæta vel. Það hefur að vísu verið gaman að sjá þær afmæliskveðjur sem dottið hafa inn á bloggið af og til.

Lífið í Kaupmannahöfn gengur sinn vanagang. Síðustu tvo daga hefur kingt niður snjó og Danir að fara á límingunum. Það er alltaf eins og Danir séu að sjá snjó í fyrsta skipti því það fer allt úr skorðum við þessar aðstæður. Það sem við Erla töldum "meðal snjókomu" setti allt samgöngukerfi Dana úr skorðum á einum degi.

Guðjón Ingi er ennþá á leikskólanum en sökum ofnæmis hefur verið tekin sameiginleg ákvörðun um að hann fari til dagmömmu. Erla fór til hennar í heimsókn í vikunni og líst einstaklega vel á kellu. Hún hefur tekið mikið af börnum með ofnæmi og kann því mjög vel til verka. Síðast var hún með tvíbura sem voru fyrirburar og hefur hún verið með þá í einhvern tíma. Guðjón ingi byrjar um miðjan febrúar og verður fróðlegt að vita hvernig hann tekur skiptunum.

Erla er í fjarnámi við Háskóla Íslands og er að læra Mannauðsstjórnun, gengur henni allt í haginn. Hún er reyndar á leið til Íslands 1. febrúar þar sem hún ætlar að vera viðstödd brúðkaup bestu vinkonu sinnar, Árnýar. Við feðgar verðum að sjálfsögðu heima fyrir og ætlum að skemmta okkur mikið saman.

Vinnan hjá mér gengur vel. Verkefnin hjá idega hafa sjaldan verið fleiri og af nægu að taka. Eins og flestir vita hef ég verið að vinna mikið fyrir Íslandsbanka og þökk sé þeim fékk ég ljómandi góða vinnuaðstöðu í bakherbergi Margrétar Danadrottningar í Amalieborg. Aðstaðan þar er til fyrirmyndar og eru 4 aðrir starfsmenn á vegum Íslandsbanka sem starfa með mér á skrifstofunni. Einnig var haldinn í gær UT dagurinn þar sem idega kom mikið við sögu.

Við fjölskyldan ætlum svo að henda okkur til Krítar í sumar. Við erum búin að panta ferðina og hlökkum mikið til. Þetta verður auðvitað í fyrsta skipti sem GIG fær að sprikla í sólinni og leika sér á ströndinni. Hugmyndir eru uppi um að Helga amma sláist í hópinn og verði með okkur seinni vikunna en ennþá á eftir að ganga frá því. Mamma ætlar engu að síður að vera eitthvað með okkur hérna í Kaupmannahöfn í sumar þar sem við höfum formlega ákveðið að koma ekki heim til Íslands í bráð. Nægur verður þó gestagangurinn því flestir afar og ömmur hafa boðað komu sína hingað í sumar amk. einu sinni.

Bið að heilsa öllum heima :)

Kveðja,

Jonathan & fjölsk.

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Gestur Diriangen 2 ára!

"Litli" drengurinn okkar verður 2 ára á sunnudaginn. Af því tilefni verður opið hús í Engjaseli 81 frá klukkan 15. Allir velkomnir, auðvita. Ég vona að við sjáum ykkur sem flest. Fyrir áhugafólk um tölur (sem nóg er af í þessari fjölskyldu) vil ég bæta við að hann er auðvita ekkert lítill lengur, hefur tvöfaldað hæð sína og meira en sjöfaldað þyngdina síðan hann fæddist.
Nefndin

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Afmæliskveðja

Elsku María mín.
Til hamingju með daginn. Pabbi hefði orðið 84 ára í dag. Mikið var leiðinlegt að sjá ykkur ekki um jólin. En það bætti upp að sjá Hafstein syngja á heimasíðunni sinni. Rosaleg tækni er orðin í þessum bransa. Bestu kveðjur í bæinn og sjáumst vonandi fljótlega.
Unnur

mánudagur, janúar 09, 2006

Afmæliskveðja

Elsku Óli minn.
Til hamingju með daginn. Sjáumst vonandi næstu helgi. Komið þið ekki í bæinn þá. Kysstu litlu frænku frá mér.
Unnur

fimmtudagur, janúar 05, 2006

Impressionismi

Svo ljóðræn var færslan hans donna frænda að ég fann þörf fyrir að fara á netið og skoða verk franskra Impressionista á borð við Renoir og Cézanne. Fannst mér þessi mynd Paul Cézanne helst lýsa líðan minni er ég las yfir textann.

Fjölskyldan ferðaglaða

Nú er komið að því öðru sinni. Ólafsbörn á leið erlendis með mökum, þá ef þeim er til að dreifa. Eins og alþjóð veit heldur Huldubarn sig ásamt sínum ektamanni umlukt vínvið í sólríkum hlíðum Frakklands. Þar drýpur rauðvín af hverri grein, nú eða hvítvín vilji menn svo við hafa. Má ætla að áður en tannbustinn fer upp í gin þeirra hjóna á morgnanna hafi a.m.k. hálfur lítri víns þegar farið þá leið og ostar og slíkt góðgæti fylgt á eftir. Dagurinn líður svo í að láta sér líða vel, rölta niður að ánni Rhone, sem rennur um hlaðvarpann hjá þeim hjónum og lyfta þar glasi af Cotes du Rhone. Síðan er litið við einhverju menningartengdu og etinn brauðbiti vættur veigum úr þrúgum hérðasins. Kvöldið fer svo í hjal á veröndinni um liðinn dag og kvöldverð þar sem litur vínanna er látinn tóna við liti himinsins þegar sólin gengur undir. Síðan bíður sængin þegar svali kvöldhúmsins leggst yfir lendur og dali þessa fagra lands.
Hvert er ég kominn eiginlega? Ég ætlaði að upplýsa um ferðalag Ólafsbarna en missti mig út í að sjá sjálfan mig í fríi í Lyon og samsamaði því yfir á þau ágætu hjón sem þar streita í sveita síns andlits dragandi björg í bú. En við Ólafsbörn ætlum, eins og áður sagði, að fara öðru sinni að heimsækja Duddu-barn erlendis. Við fórum síðast 79 utan Maríu-barn sem var bundin yfir hluta af ómegð systur sinnar hvers ákafi hennar ektamanns hafði skapað og leitt til að þrjár systur voru þá þegar í þennan heim bornar og hafa æ síðan verið ætt sinni til sóma. Ekki skal lasta slíkar kenndir sem leiða af sér slíka gleði.
En bíðið við hvert er ég nú kominn? Jú ég var að myndast við að koma því til skila þegar við systkinin hittumst síðast í Köben sumarið 79 í þrítugsafmælisveislu Huldu systur, sem bjó þar ásamt Þór og Helga systir var einnig búsett í Borginni við Sundið. Á þeim tíma vour margir afkomendur þriðju kynslóðar Ólafsbarna eigi í þennan heim borin hvað þá að farið væri að örla á þeirri fjórðu. Raunar minnist ég þess að frænka mín ein, raunar sú fyrsta af þriðju kynslóð, gekk um í þessari ferð í bol með slíkri merkingu að vel mátti greina að þar færi persóna sem vissi, líkt og móðir hennar, til hvers við værum í þennan heim borin og gekk það eftir. Senn var í heiminn kominn fyrsti afkomandi fjórðu kynslóðar Ólafsbarna, ömmu sinni og eigi síður langömmu til mikillar gleði.
En á hvaða ferð er ég núna? Ég er enn afvegaleiddur í þeirri ætlan minni að segja í stuttu máli frá ferð okkar systkina í vor. Sem sagt, nú skal þessi leikur endurtekinn. Hulda og Þór komin til Lyon og þangað skal ferð okkar hinna heitið í lok maí. Búið að bóka flugfarið og því verður eigi aftur snúið enda bíður okkar suður-evrópsk sæla líkt og lýst var í upphafi þessa pistils. Meira um það síðar.
Donni bró.