fimmtudagur, janúar 26, 2006

Lífið í Kaupmannahöfn

Ég ákvað seint í gær að byrja daginn á vænlegri bloggfærslu hér á Akurgerði. Svo virðist sem flestir hafi legið í dvala yfir hátíðarnar og skil ég það mæta vel. Það hefur að vísu verið gaman að sjá þær afmæliskveðjur sem dottið hafa inn á bloggið af og til.

Lífið í Kaupmannahöfn gengur sinn vanagang. Síðustu tvo daga hefur kingt niður snjó og Danir að fara á límingunum. Það er alltaf eins og Danir séu að sjá snjó í fyrsta skipti því það fer allt úr skorðum við þessar aðstæður. Það sem við Erla töldum "meðal snjókomu" setti allt samgöngukerfi Dana úr skorðum á einum degi.

Guðjón Ingi er ennþá á leikskólanum en sökum ofnæmis hefur verið tekin sameiginleg ákvörðun um að hann fari til dagmömmu. Erla fór til hennar í heimsókn í vikunni og líst einstaklega vel á kellu. Hún hefur tekið mikið af börnum með ofnæmi og kann því mjög vel til verka. Síðast var hún með tvíbura sem voru fyrirburar og hefur hún verið með þá í einhvern tíma. Guðjón ingi byrjar um miðjan febrúar og verður fróðlegt að vita hvernig hann tekur skiptunum.

Erla er í fjarnámi við Háskóla Íslands og er að læra Mannauðsstjórnun, gengur henni allt í haginn. Hún er reyndar á leið til Íslands 1. febrúar þar sem hún ætlar að vera viðstödd brúðkaup bestu vinkonu sinnar, Árnýar. Við feðgar verðum að sjálfsögðu heima fyrir og ætlum að skemmta okkur mikið saman.

Vinnan hjá mér gengur vel. Verkefnin hjá idega hafa sjaldan verið fleiri og af nægu að taka. Eins og flestir vita hef ég verið að vinna mikið fyrir Íslandsbanka og þökk sé þeim fékk ég ljómandi góða vinnuaðstöðu í bakherbergi Margrétar Danadrottningar í Amalieborg. Aðstaðan þar er til fyrirmyndar og eru 4 aðrir starfsmenn á vegum Íslandsbanka sem starfa með mér á skrifstofunni. Einnig var haldinn í gær UT dagurinn þar sem idega kom mikið við sögu.

Við fjölskyldan ætlum svo að henda okkur til Krítar í sumar. Við erum búin að panta ferðina og hlökkum mikið til. Þetta verður auðvitað í fyrsta skipti sem GIG fær að sprikla í sólinni og leika sér á ströndinni. Hugmyndir eru uppi um að Helga amma sláist í hópinn og verði með okkur seinni vikunna en ennþá á eftir að ganga frá því. Mamma ætlar engu að síður að vera eitthvað með okkur hérna í Kaupmannahöfn í sumar þar sem við höfum formlega ákveðið að koma ekki heim til Íslands í bráð. Nægur verður þó gestagangurinn því flestir afar og ömmur hafa boðað komu sína hingað í sumar amk. einu sinni.

Bið að heilsa öllum heima :)

Kveðja,

Jonathan & fjölsk.

2 Comments:

Blogger Unnur María Ólafsdóttir said...

Takk fyrir þetta Jónathan minn. Maður var alveg að gefast upp á að kíkja á síðuna. Þú startaðir þessu svo þú verður að standa þig í stykkinu. Ég sakna þess nú að heyra aldrei af frændum mínum fyrir norðan.
Frábær mynd af Guðjóni. Snuðið er allta gott. Gaman að allt gengur vel í Köben. Linda mín er að fara þangað 6-10. feb. með Borgó. Þau ætla að heimsækja danskan skóla og skemmta sér líka. Þau gista á hóteli. Hana hlakkar rosa mikið til. Ætlar að nota tækifærið og fara í HM.
Bestu kveðjur til ykkar í snjónum.
Unnur frænka

26/1/06 15:16  
Blogger Jonni said...

Já, Guðjón Ingi er snuddukall, á því liggur enginn vafi. Þegar hann áttaði sig á því að hann gat verið með tvær snuddur í munninum í einu varð hann mjög glaður :)

26/1/06 15:25  

Skrifa ummæli

<< Home