fimmtudagur, janúar 05, 2006

Fjölskyldan ferðaglaða

Nú er komið að því öðru sinni. Ólafsbörn á leið erlendis með mökum, þá ef þeim er til að dreifa. Eins og alþjóð veit heldur Huldubarn sig ásamt sínum ektamanni umlukt vínvið í sólríkum hlíðum Frakklands. Þar drýpur rauðvín af hverri grein, nú eða hvítvín vilji menn svo við hafa. Má ætla að áður en tannbustinn fer upp í gin þeirra hjóna á morgnanna hafi a.m.k. hálfur lítri víns þegar farið þá leið og ostar og slíkt góðgæti fylgt á eftir. Dagurinn líður svo í að láta sér líða vel, rölta niður að ánni Rhone, sem rennur um hlaðvarpann hjá þeim hjónum og lyfta þar glasi af Cotes du Rhone. Síðan er litið við einhverju menningartengdu og etinn brauðbiti vættur veigum úr þrúgum hérðasins. Kvöldið fer svo í hjal á veröndinni um liðinn dag og kvöldverð þar sem litur vínanna er látinn tóna við liti himinsins þegar sólin gengur undir. Síðan bíður sængin þegar svali kvöldhúmsins leggst yfir lendur og dali þessa fagra lands.
Hvert er ég kominn eiginlega? Ég ætlaði að upplýsa um ferðalag Ólafsbarna en missti mig út í að sjá sjálfan mig í fríi í Lyon og samsamaði því yfir á þau ágætu hjón sem þar streita í sveita síns andlits dragandi björg í bú. En við Ólafsbörn ætlum, eins og áður sagði, að fara öðru sinni að heimsækja Duddu-barn erlendis. Við fórum síðast 79 utan Maríu-barn sem var bundin yfir hluta af ómegð systur sinnar hvers ákafi hennar ektamanns hafði skapað og leitt til að þrjár systur voru þá þegar í þennan heim bornar og hafa æ síðan verið ætt sinni til sóma. Ekki skal lasta slíkar kenndir sem leiða af sér slíka gleði.
En bíðið við hvert er ég nú kominn? Jú ég var að myndast við að koma því til skila þegar við systkinin hittumst síðast í Köben sumarið 79 í þrítugsafmælisveislu Huldu systur, sem bjó þar ásamt Þór og Helga systir var einnig búsett í Borginni við Sundið. Á þeim tíma vour margir afkomendur þriðju kynslóðar Ólafsbarna eigi í þennan heim borin hvað þá að farið væri að örla á þeirri fjórðu. Raunar minnist ég þess að frænka mín ein, raunar sú fyrsta af þriðju kynslóð, gekk um í þessari ferð í bol með slíkri merkingu að vel mátti greina að þar færi persóna sem vissi, líkt og móðir hennar, til hvers við værum í þennan heim borin og gekk það eftir. Senn var í heiminn kominn fyrsti afkomandi fjórðu kynslóðar Ólafsbarna, ömmu sinni og eigi síður langömmu til mikillar gleði.
En á hvaða ferð er ég núna? Ég er enn afvegaleiddur í þeirri ætlan minni að segja í stuttu máli frá ferð okkar systkina í vor. Sem sagt, nú skal þessi leikur endurtekinn. Hulda og Þór komin til Lyon og þangað skal ferð okkar hinna heitið í lok maí. Búið að bóka flugfarið og því verður eigi aftur snúið enda bíður okkar suður-evrópsk sæla líkt og lýst var í upphafi þessa pistils. Meira um það síðar.
Donni bró.

2 Comments:

Blogger Unnur María Ólafsdóttir said...

Elsku bróðir -þvílíkt skáld- Ég bíð eftir útkomu fyrstu skáldsögu Jóns Ólafssonar af Akurgerðisættinni. Þá er best að fara að pakka niður, en fyrst fyrir London. Unnur

5/1/06 13:48  
Blogger Jonni said...

Þetta var svo ljóðrænt að ég felldi tár ...

5/1/06 14:14  

Skrifa ummæli

<< Home