Jólahugvekja
Takk fyrir góðan dag í Laufrimanum í dag. Nú ætla ég, trúleysinginn, að senda ykkur svo fallega jólahugvekju sem Séra Toskiki Toma, vinur minn, skrifaði og sendi mér.
"Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors. Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor og lýsa þeim, sem sitja í myrkri og skugga dauðans, og beina fótum vorum á friðar veg." (Lk. 1:78-79)
Í samfélagi okkar er til fólk sem situr í myrkri og skugga dauðans.
Hvaða fólk er þetta?
Á dögum Jesú voru það t.d. tollheimtumenn, hermenn eða sjúklingar. Af ýmsum ástæðum, stóð þetta fólk fyrir utan venjulegt borgaralegt samfélag. Það var einangrað og missti næstum alla von og gleði til þess að lifa lífi sínu.
Þá kom Jóhannes skírari. Hann var ekki sjálfur ljósið, en hann benti á ljósið sem skín í fjarska. Jóhannes kom og sagði; "þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði?" Þrátt fyrir slík orð sneri fólkið sér ekki frá honum. Af hverju? Af því að hann mismunaði ekki fólki. Jóhannes ávarpaði þetta yfirgefna fólk alvarlega og einlæglega. Á meðal margra trúarleiðtoga, var það aðeins Jóhannes sem leit á þetta fólk sem mannneskjur sem ættu að teljast til Guðs lýðs. Hvert og eitt okkar er jafnt fyrir augum Guðs. Hörð orð hans voru ekkert annað en tjáning þess.
Síðan kom Jesús. Hann var sjálfur ljósið. Hann var með fólki sem hafði setið í myrkri, og varð síðan það fólk sem bar ljós Guðs í samfélaginu. Guð valdi þau til að sýna dýrð sína.
Nú virðist sem margir sitji enn í myrkri í kringum okkur. Af hverju? Kemst ljós Guðs ekki til þessa fólks? Ber enginn ljósið til þess? En fyrst og fremst, hverjir sitja í myrkri núna?
Í fyrsta lagi nefni ég sjúklinga, fátæka, fatlaða, atvinnulausa, fanga, flóttamenn o.fl. Það er að segja fólk sem á í ýmsum erfiðleikum í félagskerfinu. Að sjálfsögðu eru ekki allir sjúklingar eða allt fatlað fólk í myrkri. Samt er viss tilhneiging í samfélagi okkar, sem reynir að útiloka fólk sem frábrugðið er "meðaljóninum". Í öðru lagi getur það verið fólk sem er sorgmætt eða einmana, t.d. vegna fráfalls einhvers í fjölskyldu sinni. En í þriðja lagi, hverjir fleiri?
Ég er prestur en fyrir rúmlega tveimur árum var ég atvinnulaus. Ég var að hlaupa úr einu í annað til þess að ég kæmist aftur í þjónustu. Dag nokkurn var ég beðinn um að heimsækja sjómann frá Indónesíu á spítala. Hann slasaðist alvarlega á skipi sínu og varð að dvelja hérlendis til að fá meðferð. Hann talaði aðeins japönsku sæmilega fyrir utan móðurmál sitt, og hann var múhameðstrúar. Hann var ólíkur öllum öðrum þar.
Við hittumst nokkrum sinnum, en í byrjun var hann eðlilega mjög einangraður, hræddur og dapur. Hann var mikið meiddur og missti vinnuna á skipinu. Hann var skilinn einn eftir langt í burtu að heiman. Seinna byrjaði maðurinn að tala um sjálfan sig, t.d. um heimili sitt í Djakarta og um konuna sína og fjögurra ára dóttur. Draumur hans var að opna eigin bókaverslun, en til að gera það yrði hann að spara peninga; o.fl. Stig af stigi tók ég eftir því að hann var ekki bara "sjómaður frá Indónesíu", heldur maður sem bar sitt eigið nafn, átti sína ævisögu og skyldur. Þegar hann loksins lagði af stað til síns heimalands, var hann mjög glaður á svipinn og sagði mér hve mikið hann hlakkaði til þess að hitta fjölskyldu sína. Ég bað Guð innilega fyrir honum og fjölskyldu hans.
Fyrst hélt ég að þessi maður væri einhver vesalingur og ætlaði að hugga hann. Það má segja að hann hafi setið í myrkri hér á landi. Ég reyndi að bera ljós til hans. Það er eitt, en hér er annað atriði til. Það er að ég var sjálfur huggaður með því að fá að hitta þennan mann. Spjallið við hann rifjaði mikið upp fyrir mér. Það er að hver maður er dýrmætur og einstakur. Hve þakkarvert er að eiga fjölskyldu sem bíður alltaf eftir manni og hve ómetanleg gleði er að fá að þjóna náunga okkar, sérstaklega einhverjum sem á í erfiðleikum. Ég hafði gleymt þessu og glatað á meðan ég var upptekinn af eigin vandkvæðum mínum, sem var atvinnuleysið. "Maðurinn frá Indónesíu" vakti mig til umhugsunar.
Hver sat þá í myrkri þegar allt kom til alls? Jú, maðurinn frá Indónesíu. Og ég líka. Ég sat í myrkri, en ég vissi það ekki. Þegar ég gleymdi gleðinni að elska og þjóna náunga mínum var ég kominn í það myrkur. Myrkur er ekki aðeins staða þar sem okkur skortir að vera elskuð, heldur líka sú staða þar sem við getum ekki elskað nóg þar sem við lítum ekki með kærleika og virðingu til annarra sem jafningja okkar. Við gleymun þessu svo oft og föllum ómeðvitað í myrkur. Guð gerir þann jafnan sem býst við því að vera elskaður og þann sem á að elska. Ég hélt að ég gæfi manninum frá Indónesíu ljós. Hvílíkt yfirlæti. Ljósið kom yfir hann, og yfir mig frá Jesú. "Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors." Hvert og eitt okkar er jafnt fyrir augum Guðs.
Við erum ekki sjálf ljósið. Samt er okkur heimilt að benda náunga okkar á ljós Jesú, sem lýsir okkur sjálfum líka samtímis. Hverjir sitja í myrkri? Megi ljós Jesú berast til þeirra núna á aðventu.
*******************************
Toshiki Toma, prestur innflytjenda
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home