miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Arfurinn

Það er öllum fjölskyldum nauðsynlegt að eiga verðmæta hluti, hluti sem ganga kynslóð fram af kynslóð í erfðir. Best er auðvitað þegar hlutir erfast eftir einhverju kerfi, milli kynslóða t.d í beinan karl- eða kvenlegg. Nú eða milli nafna eða frumburða. Við erum heppin fjölskylda, Akurgerðis-fjölskyldan. Góða eigum við gripi marga, en einn þeirra er þó sínu bestur og hann gengur í erfðir eftir ákveðnu kerfi. Frumburðir fjölskyldu okkar eru bornir til erfða.

Maður var nefndur Njáll og var Guðmundsson, hann reisti nýbýlið Njálsstaði í Norðurfirði í Árneshreppi á Ströndum. Njáll var smiður góður og smíðaði í smiðju sinni á Njálsstöðum rétt fyrir 1940 kistil góðan. Kistilinn gaf hann sonardóttur sinni, frumburði sonar síns Gunnars og konu hans Valgerðar Guðrúnar. Þetta var ættmóðir Akurgerðis-fjölskyldunnar, Súsanna Margrét, sem fékk kistilinn á fermingardaginn hennar um 1940. Njáll lést 7. janúar 1941. Hann skrifaði með gjafabréf þegar hann færði sonardóttur sinni þetta "kúfort" eins og hann kallaði gripin og bað henni allrar blessunar.

Það bar svo við síðastliðið sumar, að frumburður 3ju kynslóðar Akurgerðis-fjölskyldunnar, Súsanna Margrét, náði þeim merka áfanga að verða fertug. Af annarri kynslóð var hún því talin nógu þroskuð til að axla þá ábyrgð sem því fylgir að móttaka og varðveita erfðagripinn góða, kúfortið frá Njálsstöðum. Mætti önnur kynslóð fjölskyldunnar öll ásamt tiltækum mökum til Súsönnu Margrétar og afhenti henni kúfortið við hátíðlega athöfn með viðeigandi ræðuhöldum og guðsblessun, líkt og langa-lang afi hennar hafði beðið ömmu hennar og nöfnu tæpum 70 árum áður. Var athöfnin og veislan sem fylgdi ógleymanleg öllum þeim er þar voru.

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Myndir frá France



Jæja loksins kemur afmælismyndin fyrir Þór. Einhver tæknimistök í sendingu á mánudaginn en tókst í gær.

Sendi með í leiðinni mynd af okkur að borða hið rómaða Lyonese sallat sem við slefuðum yfir eins og sjá má. Það gáfu sér ekki allir tíma til að líta upp frá krásunum.

Bestu kveðjur til ykkar allra. Er með hugan hjá Donna og Maggý í vetrar (haust fríi) í Barcelona.

Unnur