fimmtudagur, mars 30, 2006

Donni

Ég má til með að miðla þessum pistli sem félagi Össur setti á bloggsíðuna sína eftir ferð til Tógó í Afríku nýverið. Sum ykkar hafa eflaust lesið þetta og önnur heyrt af þessum pistli. Hér er á ferðinni slíkur texti og efni að engan lætur ósnortinn hvort sem viðkomandi ber gælunafnið Donni eður ei, eða er fæddur á kvennréttindadaginn 1953 líkt og Össur.

Grátur Dieudonné - gjafar Guðs
Ég sá Dieudonné fyrst þar sem hann lá sofandi í ferhyrndu svampfleti með aðra löppina upp á brúninni. Kolsvartur, hnykilbrúna, fullorðinslegur einsog lífsreyndur einsoghálfs árs strákur getur verið. Hann hafði svipsterkt afrískt andlit, og svolítið raunamædd augu. Hann rifaði aðeins í annað augað meðan hann var að vakna, sá mig og brá svo að sjá snjóhvítan gest að hann settist upp einsog fjöður, nuddaði á sér augun, og fór að gráta.

Þetta voru fyrstu kynni okkar Dieudonné sem þýðir Gjöf Guðs þegar ég kom á Spes niðrí Lóme. Ég tók hann í fangið, strauk á honum augabrýrnar einsog ég geri við Ingu mína, klóraði honum um bakið, og nuddaði á honum iljarnar og teygðu aðeins úr tánum hans svörtum og smáum. Honum fannst gott að liggja fast utan í maganum á mér, vildi ég héldi hendinni þétt utan um hann, og skríkti þegar ég klóraði honum í kollvikin þar sem örlitlir hrokknir lokkar skutust upp úr háu enni. Innan skamms var hann sofnaður í fangi mér við taktinn úr vestfirsku hjarta sem áreiðanlega hljómaði í eyrum hans einsog margra alda gamall trumbusláttur innan úr frumskóginum.

Ég kallaði hann Donna. Hann var með yngstu börnunum hjá okkur í Spes. Uppfrá því fóru allir krakkarnir að kalla hann Donna og fóstrurnar á Spes líka. Það er líklega það eina sem ég á í svörtu Afríku, nafnið á honum Donna litla. Þegar ég kvaddi hann í þetta skipti grét hann hástöfum, og staulaðist á litlum fótum sínum á eftir mér yfir grasflötina og út á mölina að hliðinu. Hjarta mitt bráðnaði, ég snéri við og tók hann aftur í fangið og hjúfraði hann að mér lengi dags.

Næst þegar ég kom lá hann í kös lítilla svartra stráka sem sváfu miðdegislúrinn á teppi í forsælu undir leikskýlinu á miðri flötinni. Í kringum þá voru þrjár litskrúðugar eðlur að leik. Ég þekkti hann ekki í hópnum. En Donni er kanski af ljónakyni og hafði andvara á sér einsog þau í svefninum. Kanski þekkti hann af mér lyktina. Minnsti strákurinn í hópnum reif sig að minnsta kosti upp úr kösinni og staulaðist til mín og ég þekkti Donna.
Upp frá þessu kom ég á hverjum degi aðallega til að hitta Donna minn. Í hvert skipti urðu fagnaðarfundir. Ég skammaðist mín pínulítið fyrir að alltaf þegar ég kom kölluðu hin börnin Donni, Donni og náðu í hann. Það var einsog þau sættu sig við að ég væri ekki að koma að heimsækja þau, heldur hann, og afgreiddu mig sem sérstakan vin Donna, einsog þau byggjust ekkert sérstaklega við að einhverjum einsog mér þætti líka vænt um þau. En það var ekki svo.

Alltaf skreiddist Donni upp í sömu stellinguna og sofnaði við vestfirskan hjarslátt. Ég kveið fyrir því að hitta hann í síðasta skiptið áður en ég fór frá Tógó. Ég stóð á jaðri grasflatarinnar og sá hann standa uppi á stéttinni fyrir framan tíguleg húsin í Spes. Donni, Donni kölluðu krakkarnir, og hann snéri sér hægt og virðulega við einsog aldinn afrískur höfðingi, og studdi annarri hendi á handriðið. Ég kom ekki, og hann tók ákvörðun. Steig í fyrsta skiptið varlega niður tröppuna, hrasaði, en hélt sér uppi, komst klakklaust niður, og hljóp í fyrsta skipti á ævinni yfir flötina með bleyjuna niðrum þétt lærin. Hann bókstaflega kastaði sér í fang mér.

Ég sat með hann í klukkutíma, og svo varð ég að fara. Hann grét djúpum gráti þegar ég fór, og Immaculae, forstöðukonan, reyndi að sefa þennan dimma afríska grát sem barst einsog ófullgerð hljómkviða úr iðrum frumskógarins þaðan sem rætur hans lágu. Ég hugsaði um hverskonar líf hann ætti fyrir höndum og hvernig honum reiddi af í stórum hópi foreldralausra barna þar sem hann var minnstur.

Grátur Dieudonné reif mig í hjartað og bergmálar einsog brimalda sem skellur inn í víðan sjávarhelli og heldur áfram að kastast á milli veggjanna og nær ekki að deyja út.

laugardagur, mars 04, 2006

Solla stirða stígur framSæl veriði öll sömul frændur og frænkur, flest fyrir sunnan og jafnvel í útlöndum. Venjulega er ég frænka ykkar, Álfeiður Una dóttir hans pabba míns og hennar mömmu minnar. En stundum er ég ákaflega dugleg í leikfimisæfingum, fer í splitt og spíkat og hvað þetta heitir nú allt saman. Þá er ég eins og hún Solla stirða, sem ég er mjög hrifin af. Þennan leikfimiáhuga á ég að rekja til afa Donna, sem er líka voðalega duglegur í leikfimisæfingum. Á öskudaginn, í leikskólanum mínum sem heitir Naustatjörn, var ég auðvitað Solla stirða allan daginn og gerði allar æfingarnar, en mikið var ég þreytt þegar deginum lauk og sofnaði í fanginu á henni mömmu minni. Venjulega sef ég í prinsessurúminu mínu sem hann afi Donni smíðaði fyrir hana Unu Helgu frænku mína og afi hennar prjónaði, eins og Una Helga sagði, þegar hún var lítil prinsessa. Ég hef erft svolítið af prinsessugenunum og leiðist ekki að vera prinsessa.

Jæja ég ætla nú ekki að hafa þetta lengra að sinni, vildi bara lofa ykkur að frétta af mér, því ég hef haft mjög gaman af því að sjá alla litlu frændur mína hér á síðunni og frétta af þeim.

Ykkar Álfheiður Una