þriðjudagur, janúar 29, 2008

Gestur Diriangen 4 ára


Gestur orðinn 4 ára og finnst hann vera orðinn stórt barn en ekki lítið lengur. Í gær mældist hann 105 cm og er ekkert nema lappirnar. Á sunnudaginn héldum við afmælisveislu - 25 manns (bara sistkyni Saúl) og mikil stemming. Hún náði hámarki þegar börnin börðu í tætlur brúðu í fullri líkamsstærd sem troðin var út af sælgæti. Þetta yrði nú bannað í Svíþjóð... Video sjást á síðunni okkar og myndir líka. Takk fyrir stafabókina Hulda, nú segist Gestur loks vilja læra að lesa.

Eftir að íslenska fjölskyldan okkar fór heim talar Gestur mikið um að fara til Íslands og í öllum leikjum hjá honum er flogið eða siglt til Íslands. Mest langar hann að leika sér í snjó, en það verður bið á því. Ég reikna með að við mæðginin komum 1. júlí og Saúl þann 5. Hlakka til að hitta ykkur öll þá.

Kveðja úr sólinni (vaxandi hiti og ryk),

Gerður

mánudagur, janúar 14, 2008

Fyrir 10 árum

Og við höldum áfram með myndashowið...

Þessi mynd var tekin 11. janúar 1998 á síðasta afmælisdeginum sem við afi áttum saman.

föstudagur, janúar 11, 2008

Til hamingju afi

Hann elsku afi Óli hefði orðið 86 ára í dag ef honum hefði enst aldur. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að þann 25. mars nk. verði komin heil 10 (leiðrétt :)) ár frá því hann fór yfir móðuna miklu. Það sem tímanum nú líður ...

Elsku afi minn og elsku María frænka. Innilegar hamingjuóskir til ykkar beggja á afmælisdaginn, hvar sem þið megið vera.

fimmtudagur, janúar 10, 2008

Afmæli Maríu


Þar sem ég er fyrst til að skrifa hingað inn í ár vil ég byrja á að óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það liðna.

Við fjölskyldan erum komin heim frá Níkaragúa, þar sem við nutum gestrisni Gerðar og Saúls. Þetta var mikil ævintýraferð og svo margt nýtt sem við sáum og upplifðum að ég er ekki búin að vinna úr því ennþá. Hvað þá myndunum fimmtánhundruð sem við Kolli tókum í ferðinni. Þegar því er lokið set ég ferðasöguna í máli og myndum á heimasíðuna okkar.

Hér eru þó nokkrir punktar sem koma upp í hugann:

-Iguanaeðlukjöt bragðast mun betur en snákakjöt.

-Valgeir er tungumálasnillingur og var altalandi á spænsku eftir nokkra klukkutíma í landinu.

-Það má ekki sleppa pabba lausum í kúrekastígvélabúðum, því þá kaupir hann alla búðina.

-Átta ára Flor de Caña er besta romm í heimi.

-Það er yndislegt að sofna við eðlugagg á hverju kvöldi og vakna við hænugagg.

-Það er gott að worka tanið í Níkaragúa, sérstaklega um leið og maður berst við öldur Kyrrahafsins.

Meira síðar...
Janúar er mikill afmælismánuður. Móðursystir mínog nafna fagnaði afmæli sínu 3. janúar, Óli Dan hefur væntanlega átt góðan afmælisdag í faðmi fjölskyldunnar í gær (Til hamingju með Guðrúnu Lilju!), Gestur Diriangen verður fjögurra ára 29. janúar og sjálf mun ég fylla þriðja tuginn á morgun. Af því tilefni verður heitt á könnunni hér á Langholtsveginum á sunnudaginn kl. 4.

Kveðja,María