fimmtudagur, september 20, 2007

Frænka safnar sögum

Frænka okkar af Snæfellsnesinu er að safna sögum af langa-langömmu sinni, Guðrúni, sem var systir Njáls. Hún skrifaði mjög skemmtlegt blogg á síðuna sína þar sem hún biður fólk að senda sér sögur sem það kann af þessu fólki, Sigurrós og börnunum hennar Njáli, Guðrúnu og Júlíönu. Ég veit að þið lumið á einhverju.

þriðjudagur, september 04, 2007

Ýmislegt gerist í Engjó


Eftir margra mánaða hlé átti ég leið um Akurgerði og mikil varð undrun mín og gleði þegar ég las ótal hlýjar kveðjur til sjálfrar mín síðan í sumar! Ekki er laust við að manni hlýni um hjartarætur þegar maður verður var við hvað stórfjölskyldan stendur þétt - við hittumst síðast allmörg á tónleikastaðnum Organ í síðustu viku þar sem hin stórgóða hljómsveit Jan Mayen átti stórleik.

En fyrst ég er komin í Akurgerði er rétt að gefa örlitla skýrslu um okkur hér í Engjaseli enda mikið að gerast á heimilinu um þessar mundir. Öll erum við í skóla þetta haustið: Ég kenni sem fyrr í FÁ og HÍ en Vala og Kalli eru bæði í FB þar sem Kalli hóf nám fyrir stuttu á glænýrri íþróttaafreksbraut enda mikil handboltahetja þar á ferð. Við höfum öll staðið í dramatískum en þó nokkuð skemmtilegum samskiptum við hitt kynið á árinu og höfum þar einkum að leiðarljósi að eiga einungis náin kynni við aðila sem byrja á H (Halldór, Hrefna, Hrafnkell og þá hafði Harry nokkur Potter sterka návist síðsumars). Þetta hefur nú allt borið þann ávöxt sem Donni frændi spáði fyrir um í fertugsafmæli mínu síðasta sumar: Vala (sem hér sést við snæðing) á von á barni og ætlar að eiga það í kringum afmælið sitt í febrúar næstkomandi. "Fjórðungi bregður til nafns" sagði ég við móður mína þegar ég færði henni tíðindin af nöfnu hennar sem þó er ívið eldri en amma hennar var undir sömu kringumstæðum. Ekki er ég viss um að Siggi hafi áttað sig á þessu þegar hann valdi dóttur sinni nafn á sínum tíma (fyrir skemmstu, liggur mér við að segja). Ég lýk blogginu með tilvitnun í Súsönnu Margréti eldri sem rifjaði þetta gjarnan upp en horfði svo hlýlega á undirritaða og sagði: "Eins og það varð nú mikil blessun!"