Lipur var þeirra fótgangur.
Takturinn fannst þeim heldur tómlegur,
svo þeir tóku að hlaupa Boston-maraþon.
Já þriðju hlaupaferðina á tæpu ári fórum við mágarnir nýverið. (Við verðum að fara að hætta að hittast svona Biggi, þetta er farið að vekja umtal í familíunni). Hin gamla höfuðborg Íslendinga, Kaupmannahöfn; og hin aldraða hámenningarborg Evrópu, Berlín (þá fékk Lilla að koma með), hafa þegar fóstrað fætur okkar og nú var komið að öðrum heimsálfum. Við erum jú alltaf í útrás Íslendingar. Það eru bara eðal hlauparar, líkt og við mágarnir, sem geta unnið sér rétt til að vera ekið í skólarútu út úr hinnu fögru borg Vesturheimskra, Boston, upp í sveit til þess eins að hlaupa til baka. Og það gerðum við einn góðviðrisdag í apríl. Spáin var raunar ekkert sérstök hvað veður áhrærði, hálfskýjað og einhverjar farinhædgráður sem maður kann ekkert að reikna til siðmenntaðra selsíusgráða, svo maður var ekkert að maka sig út í sólvarnarsmyrslum eða að klæða á sér skallann til varnar hugsanlegu sólskini. En auðvitað skín sól á réttláta sem rangláta og hún skín því á Vesturheimska líkt og aðra. Hún dansaði því yfir og til hliðar við mig alla leiðina svo glöð að sjá hversu duglegur ég var að hlaupa til baka. Hlaupaleiðin var auðvitað upp og niður endalausa ása, sem Vesturheimskir eltu áður indíána eftir til að koma í kristinna manna tölu líkt og öðrum sem fóru um þetta land hinna útvöldu. Við rásmarkið, að afloknum tvíendurteknum þjóðsöng hinnar guðsútvöldu þjóðar og herþotuflugi yfir okkur, svona til að láta okkur vita að hinn almáttugi höfðingi þessarar þjóðar vekti yfir öryggi okkur hljóp ég af stað eins og kálfur út í vorið. Hér skyldi Vesturheimskum sýnt hvernig fólk af frumbyggjategund þessa svæðis, næst á eftir skrælingjunum auðvitað, en löngu á undan villuráfandi sjóveikum spaniólum eða öðrum óþjóða lýð neðan úr gömlu Evrópu, hlypi þessa ása líkt og íslenskt forystufé leiðir safnið af fjalli til byggða á haustin. Það var eitthvað, líklegast í loftinu, sem gerði fæturna svo þunga að ég mátti þá vart bæra þegar, sem betur fer, ansi margar mílur höfðu mjakast hjá, en þó ekki nógu margar. Var þá svo komið að starfsemi heilans, undir hinni brennandi bostonísku sól, fór í gamalkunnugt far; Hvern fjandann ertu að fara maður? Hvers vegna ertu að pína þig þetta? Hættu við Laugavegshlaupið! Hættu við 50 km hlaupið! Hættu við önnur áformuð maraþon! Já, já, já svaraði ég heilanum bara ef þú kemur mér í mark. Ég ræð ekki lengur yfir löppunum svaraði heilinn, ég get rétt mjakað öðrum fæti fram fyrir hinn. Viðjið þið koma mér í mark kæru fætur og ég skal labba lífið á enda. OK sögðu fæturnir, við nennum ekki lengur þessum sífelldu hlaupum á þér maður. Undan hverju ertu eiginlega að hlaupast? Og þannig komst ég í markið á síðustu kröftum fúinna fóta aldraðs manns. En vatnsflaska, orkudrykkur, orkubar, faðmlög og árnaðaróskir já og bara ágætur hlaupatími hvíldu fæturna furðu fljótt. En fæturnir minntu á loforðið um hlaupalok. Ég var með lygamerki á puttunum svaraði ég og við hlóum að fótunum, puttarnir og ég. Þið munuð aldrei vera rólegir hér eftir sem hingað til, sagði ég við fæturna. Um leið og heim kemur hefjum við saman, þið mínir fráu fætur og þú frjói heili, samstarf um að koma þessum síunga hlaupagarpi gegnum öll þau hlaup sem hugur stendur til. Er þetta ekki bilun? sagði heilinn, farinn að jafna sig eftir soðninguna Vestra. Jú víst er þetta bilun sagði ég, en það er ljúft að vera bilaður.
Ertu klár mágur? Ertu tilbúin systir?
Johnnie Runner